Að lykta af viskíi

Lyktin er afar stór partur af því að smakka viskí.

Mjög oft einblínir fólk að mestu á bragðið, hvernig viskíið bragðast á tungunni, dembir sér oft og tíðum beint í það að bragða viskíið án þess nokkurn tímann að lykta almennilega af því.

Fróðir menn segja að nefið skynji mun fleiri mismunandi lyktir en munnurinn skynji brögð. Oftast er talað um 4 mismunandi brögð sem manneskjan skynjar; sætt, súrt, salt og beiskt.

Nefið á að skynja mun fleiri mismunandi tegundir lykta og er því mjög mikilvægt í því skemmtilega ferli sem viskísmökkun er.

Þegar ég smakka viskí, þá eyði ég oft heillöngum tíma bara að lykta af því, reyna að greina hin mörgu mismunandi blæbrigði sem geta verið í einmöltungsviskíi. Svo, þegar því verkefni er lokið, þá er spennandi að smakka viskíið. Oft kemur það manni mjög á óvart eftir að hafa eytt löngum tíma í að þefa af því, því bragðið er oft töluvert öðruvísi en maður bjóst við.

Síðan er líka skemmtilegt að setja sama viskíið í tvö glös. Lykta af öðru beint af kúnni, og hinu með dropa af vatni. Viskí breytist nefnilega heilmikið með viðbættu vatni. Flest til hins betra. Vatnið losar um viskíið, opnar það, og í mörgum tilfellum finnst mér það verða sætara. Fer eftir tegundum vissulega. Það verða efnafræðilegar breytingar í vatni lífsins þegar venjulegu vatni er bætt út í það sem hafa töluverð áhrif á lokaútkomuna. Að smakka sama viskíið hlið við hlið, með og án vatns er afar forvitnilegt og eitthvað sem ég sannarlega mæli með að gera. Og ef þið hafið tíma og nennu, þá er kannski ráð að skvetta í þriðja glasið og geyma það lengur. Sjá hvernig það breytist er það “andar”.

Hvernig er svo best að smakka viskí?

Glasið skiptir öllu máli. Öllu segi ég! Best er að hafa það fremur lítið, belgmikið um miðjuna sem svo þrengist þegar ofar dregur. Glencairn glösin eru best til þess at arna, að mínu mati.

Reyndar má nota hvaða glös sem er sem falla að þessari lýsingu að ofan. Það hefur ekki verið auðvelt að nálgast þessi glös á Íslandi, en með tilkomu aukins áhuga á Íslandi á viskíi hefur einn einstaklingur tekið upp innflutning á þeim. Hann má finna á facebook undir heitinu Viskí áhugamál.

Glasið já … það er gríðarlega mikilvægt. Ekki notast við þessi “klassísku” viskíglös sem þið sjáið í bíómyndunum, svona gríðarsver tunnuglös sem eru jafn sver að ofan og neðan, sívöl. Ég hef komið að því hér annarsstaðar á blogginu að þau séu alveg bönnuð! Þau eru síðan á bannárunum þegar Kanar drukku allskonar óþverra og það þurfti að vera pláss fyrir bunka af klökum til að deyfa óbragðið. Einnig tíðkast þar “scotch&soda” sem þarf stærri glös. Síðan rötuðu þessir hlunkar í Hollywoodmyndir og sjarmatröll sem Cary Grant o.fl. sáust þamba úr þessum tunnum. Við þurfum ekkert slíkt, enda með háklassa viskí sem þurfa enga klaka og drekkast bara “neat” eins og sagt er.

Hellið í glasið, barmafullt! Neinei, vissulega ekki, bara rétt eins og sést á myndinni að ofan, ekki meira.

Lyktið af glasinu úr smá fjarlægð, snúið glasinu og látið viskíið þeytast aðeins um ofan´í. Lyktið aftur, enn úr kannski 10-20 sentimetra fjarlægð og finnið hvernig lyktin skýst á móti ykkur, lóðrétt beint upp úr glasinu. Ekki troða nefinu ofan í til að byrja með. Leggið nefið varlega að toppi glassins og andið djúpt. Varlega, sérstaklega af þið eruð með “cask strength” viskí sem oft er að styrkleika upp á 55-60 prósent. Sé nebbanum troðið ofan í glas með svo sterku áfengi, þá getur komið upp brunatilfinning í nösunum sem skemmir upplifunina. Eitt trix er svolítið skemmtilegt. Það er að setja smá viskí á handarbakið og nudda þar til það þornar. Lykta svo af handarbakinu. Mæli með að þið prófið það.

Svo er bara að lykta og lykta, reyna að sjá fyrir sér hvað það er sem lyktin minnir þig á. Eru það epli? Ávextir? Hunang? Karamella? Gras? Mold? Mór? Beikon? Reykur? Hvað er það? Og munum að engir tveir upplifa viskí 100% nákvæmlega eins. Það er gaman að smakka viskí með öðrum því menn upplifa það oftast ekki eins. Það sem einum finnst, finnst öðrum ekki svo allir hafa rétt fyrir sér. Nema sumir vissulega!

Dæmi: Mér finnst eitt einkenna ungra viskía vera bragð af grænum eplum. Hvernig áttu að útskýra það fyrir einhverjum sem hefur ekki smakkað græn epli og hvernig á hann þá að finna það bragð? Vissulega hafa flestir sennilega smakkað græn epli, enda var þetta nú bara svona smá dæmisaga til að leggja áherslu á mál mitt.

Eftir að hafa nusað af dropanum drykklanga (!) stund er kominn tími á að smakka herlegheitin. Munið eftir því hvað lyktin minnti ykkur á. Berið svo saman við það sem bragðskynið er að segja ykkur. Oft er þar töluverður mismunur og kemur á óvart. Ég hef oft smakkað viskí sem mér fannst hundvont þó svo að lyktin gæfi annað í skyn og öfugt. Viskí sem lyktar afar óaðlaðandi getur einnig smakkast unaðslega.

Svo er bara að njóta … í hæfilegu magni vissulega!

Laphroaig QA cask, fríhafnarbokka.

Heilir og sælir góðir viskíhálsar. Ég er enn tölvulaus en vonandi fer eitthvað að gerast í þeim málum.
Varð að nefna að ég hnaut um fríhafnar-Laphroaig, QA Cask. Langsamlega langversti Lafroggur sem ég hef smakkað. Er mikill aðdáandi Lafroggs, og aldrei smakkað, segi ekki vondan heldur kannski vonbrigðulan, Frogg þar til nú. Ekkert í gangi, finnst eins og ég sé að drekka of-útvatnaðan og þynntan 10 ára. Alls ekkert að gerast. Falleinkunn. Drasl. Mæli alls ekki með QA Cask.

Published in: on 11/08/2014 at 12:17  Comments (4)  

Ellihrumur Laphroaig

Heil og sæl, og gleðilegt ár!
 
Í gær smakkaði ég Laphroaig, 10 ára, eimaðan fyrir hartnær 30 árum síðan. Sá sem færði mér flöskuna sagði að þetta hefði verið síðan Laphroaig ræktuðu og möltuðu allt sitt bygg sjálfir (framleiðslan er það umfangsmikil í dag að það er mest keypt frá býlum sem rækta fyrir þá). Ég er ekki með ártalið á hreinu verð ég að viðurkenna, en er nokkuð viss um að það hafi verið snemma á 9. áratugnum sem þeir fóru að kaupa annarsstaðar frá. Kauðinn sá er gaf mér þetta smakk var á því að það hefði verið um 1982-1983 cirka. Reyni að komast að því. Er kannski einhver hér með það á hreinu?
 
Ég hef heilsað upp á nokkra glasbotnana á 10 ára Lappanum sem er í gangi í dag og er vel kunnugur hvernig hann bragðast. Þegar ég lyktaði af þessu varð ég ögn hissa. Lyktaði eiginlega bara voða lítið eins og Laphroaig, miklu ávaxtakenndara og minni móreykur. „Ertu viss um að þetta sé Lafrojg“ spurði ég. Jújú, hann fullyrti það.
Þá kom að því að smakka og jú, þetta var Laphroaig! Létt og ávaxtakennt fyrst, líflegt, ferskt, perur, ananas jafnvel og slík áhrif en svo kom móreyksbomban! Og þvílík bomba. Miklu, miklu flóknara og margslungnara er Lappinn er í dag. Og jafnvel þótt skammturinn minn hafi verið agnarsmár lifði bragðið með mér heillengi. Stórfenglegt viskí. They don´t make ’em like they used to!
Published in: on 14/01/2014 at 15:49  Færðu inn athugasemd