Strathearn

Önnur ný verksmiðja heitir Strathearn. Sú var opnuð árið 2013 og í október sama ár hófst framleiðslan. Strathearn stendur við 1300 manna þorpið Methven sem er skammt vestur af Perth, sem er ögn betur þekktur bær.

Edradour hefur hingað til stært sig af því að vera minnsta viskíverksmiðja Skotlands, en Strathearn hefur tekið fram úr þeim, ef svo má að orði komast. Ársframleiðslugeta Edradour er 130.000 lítrar á ári, en framleiðslugeta Strathearn er einungis 30.000 ltr. Abhainn Dearg (Framb. Avín Djarrek)  á Isle of Lewis eru þó hugsanlega enn smærri, en það munar ekki miklu. Að þeim síðar.

Eins og fyrr sagði er Strathearn agnarsmá verksmiðja með litla eimara. Strahearn notar byggtegund sem fáar aðrar verksmiðjur nota nú til dags. Það kallast Maris Otter Barley og er víst sjaldan notað því það þykir frekar „latt“ og dýrt og auk þess erfitt að fá það til að spíra. Með þolinmæði er þó hægt að notast við það og á það að gefa afar mjúkt og gott bragð. Einnig hafa þeir verið að prófa sig áfram með „bere“ bygg, sem vex aðallega á Orkneyjum. Talið er að víkingar hafi komið með þessa tegund byggs yfir til Bretlandseyja á 8. öld. Bere bygg vex reyndar einnig á Islay, en eingöngu síðan 2006 þegar Bruichladdich verksmiðjan lét planta því þar fyrir sitt Bere Barley single malt.

Samhliða viskíi er einnig framleitt þar gin, eins og svo margar nýjar verksmiðjur gera meðan beðið er eftir að viskíið þroskist. Ég er svo sem ekki mikill gin maður en hef smakkað allt það gin sem þeir hafa framleitt og verð að segja að ég hef smakkað verri gin. Mér fannst þessi m.a.s. virkiega góð. Hvað um það, þetta er viskíblogg er það ekki?

Ég hef ekki enn gerst svo frægur að smakka viskíið þeirra (enda er framleiðslan þeirra ekki enn orðin viskí), en þegar það gerist, þá munu detta inn nokkrar línur hér.

Nýlega komu frá þeim tilraunaútgáfur, „viskí“ sem hefur verið þroskað í annarskonar viðartunnum en eik; kastaníuvið, mórberjavið og kirsuberjavið, en eins og við vitum má ekki kalla viski „viskí“ nema það komi úr eik. Því brugðu þeir á það ráð að kalla fyrirbærið Uisge Beatha (framb: Ujsge Ba), sem er fornt, galískt heiti yfir viskí, eða vatn lífsins  (aqua vitae) eins og menn sögðu áður fyrr í óld deis. „Uisge Beatha“ þróaðist svo yfir „uisge“ og svo loks í Whisk(e)y.

Bæði verður framleitt reykt (35ppm) og óreykt viskí hjá Strathearn og eru fyrstu einmöltungar væntanlegir síðla árs 2016. Framleiðslustjórinn heitir Zak Shenfield og er einungis 22ja ára, en hefur þegar fengið nafnbótina Scotland´s Young Distiller of the year í Scottish Craft Distillers Association Awards.

Hér er svo mynd af manninum á bakvið herlegheitin, Tony Reeman-Clark og eins og sést, þá er hann sennilega ekki alinn upp í Gaggó Vest, en burtséð frá því þá eru eimararnir ekki sérlega stórir.tony and stills

http://www.strathearndistillery.com/

AA-strathearn2shotBíð spenntur eftir fyrsta smakki.

Published in: on 04/02/2016 at 16:51  Færðu inn athugasemd  

Nýjar verksmiðjur; Wolfburn.

Það er heilmikil uppsveifla í viskíbransanum þessa dagana, um allan heim. Til að mynda eru japönsk viskí að verða illfáanleg, vegna gríðarlegrar eftirspurnar. Margar verksmiðjur eiga ekki nóg á lager til að nota aldurstilgreiningar lengur og því hafa þær hafa neyðst til að drýgja sína framleiðslu með yngri viskíum. Þekktasta dæmið er Macallan, sem er hætt með 10,12 og 15 ára og notast núna við nöfn, frekar en ártöl. Macallan Gold er t.a.m. gamla 10 ára drýgt með yngra viskíi. Fleiri hafa fylgt í kjölfarið. Ástæðan er einfaldlega sú að fyrir 10-15 árum síðan var ekki framleitt nóg til að anna eftirspurn í dag. Japönsk viskí eru svo kafli útaf fyrir sig, þökk sé aðallega, Jim Murray og bókinni hans með hógværa titilinn, The Whisky Bible.

Í Skotlandi eru að skjóta upp kollinum verksmiðjur hér og þar, og er það vel.  Eftirspurnin eftir skosku viskí er alltaf að aukast. Á 9. áratugnum lokuðu margar, sérstaklega árið 1983 þegar við misstum Port Ellen, Brora, Dallas Dhu, Banff, Glen Albyn, Glenlochy, Glen Mhor, Glenury Royal, og St. Magdalene. 1985 lokuðu Coleburn, Convalmore, Glen Esk og Millburn.

10. áratugurinn var ekki góður til að byrja með heldur þegar Rosebank, Lochside og Littlemill lögðu upp laupana.

Síðan þessi ósköp gengur yfir hefur eftirspurnin aukist aftur og árið 1995 opnaði Arran Distillery á eyjunni Arran við vesturströndina.

Arran framleiðir óreykt (með undantekningum) létt, ferskt viskí með sítruskenndum ávaxtakeim.

Árið 2005 opnaði Kilchoman á Islay. Fyrsta nýja verksmiðjan byggð á Islay í 124 ár. Þeir malta sitt bygg að hluta til sjálfir, en fá megnið frá Port Ellen, sem nú er eingöngu möltunarverksmiðja og sér mörgum viskíverksmiðjum fyrir reyktu byggi/malti.

Það bygg sem Kilchoman fær frá Port Ellen er reykt jafn mikið og Ardbeg, semsagt alger reykbomba en það sem er maltað á staðnum er u.þ.b. helmingi minna reykt, eða um 25ppm. Kilchoman er ótrúlegt viskí eiginlega. Að vera svona vel þroskað miðað við hvað það er ungt (núverandi útgáfur eru um 6-7 ára) og mikið reykt er alveg þrælmagnað. Hef smakkað mörg ung og reykt viskí og þau komast ekki nálægt Kilchoman í gæðum. Gott dæmi er nýja, enska viskíið, St. George´s, sem þó hefur tekið miklum framförum undanfarin 2 ár eða svo.

Arran og Kilchoman eru viskí sem er komin töluverð reynsla á. Hinsvegar eru að gægjast fram í dagsljósið verksmiðjur hér og þar um landið, ýmist á teikniborðinu, í byggingu eða um það bil að byrja að framleiða.

 

Lítum á Wolfburn, sem er nyrsta verkmiðjan á meginlandinu, tók þar fram úr Pulteney sem stendur við Wick á norð-austur horninu.

Thurso

Wolfburn var stofnað árið 2012 og stendur í iðnaðarhverfi við útjaðra bæjarins Thurso og er heldur óhefðbundin í útliti.

aa117

Árið 1821 var stofnuð viskíverksmiðja undir sama nafni, en hún lokaði seinnipart sömu aldar. Þessi nýja er ekki langt frá staðnum þar sem sú gamla stóð. Verksmiðjustjórinn heitir Shane Fraser og hafði starfað áður hjá Lochnagar, Oban og síðast í 7 ár verið verið verksmiðjustjóri hjá Glenfarclas, svo að kauði ætti að vita hvað hann syngur.

Þeir voru ekkert að tvínóna við hlutina og fyrstu droparnir runnu úr eimurunum í janúar 2013. Búist er við fyrsta Scotch-einmöltungnum á næstum vikum eða mánuðum.

Meiningin er að framleiða frekar létt og mjúkt viskí, en sennilega með örlitlum, reyktum, mó-keim því það er að miklu leyti þroskað í gömlum, og litlum (quarter casks) frá einhverri verksmiðju á Islay. Veit ekki hvaða, en grunar Laphroaig. Auk þess verður einhver hluti af framleiðslunni verður reyktur, því 3-4 mánuði á ári er framleitt léttmóreykt viskí. Spurning hvort það verði blandað við óreyktu framleiðsluna eða þeir framleiði 2 mismunandi viskí.

Spennandi að sjá og smakka.

Published in: on 21/01/2016 at 17:32  Færðu inn athugasemd  

Enn ný verksmiðja

Átöppunarfyrirtækið Hunter Laing hefur ákveðið að fara að framleiða sitt eigið viskí. Verksmiðjan verður á Islay, í Ardnahoe sem er rétt sunnan við Bunnahabhain, á norð-austur hluta eyjarinnar. Búist er við að framleiðsla hefjist síðla árs 2017 og verða þeir hugsanlega á undan Gartbreck að opna, vegna tafa hjá þeim síðarnefndu.

Þetta er ein fjölmargra nýrra verksmiðja í Skotlandi. Aðrar eru Gartbreck, Wolfburn, Strathearn, Kingsbarns,Ballindalloch, Ardnamurchan, Annandale, Daftmill (opnaði 2005 en lítil virkni enn sem komið er), Abhainn Dearg, Ailsa Bay, Roseisle, Eden Mill, Dalmunach, Glasgow distillery og Harris distillery, Raasay og Barra. Þetta eru heilar hvað, 18 nýjar verksmiðjur. Sem er hreint ótrúlegt. Best að setjast yfir bækurnar og stúdera þetta allt saman…

Published in: on 21/01/2016 at 16:42  Færðu inn athugasemd  

Glendronach 8

Glendronach er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég er vanalega minna fyrir sérrítunnuviskí, en það er eitthvað sem þeim tekst þarna sem mér finnst öðrum sérrí-viskíum, t.a.m. Macallan, Glenrothes, Dalmore svo eitthvað sé nefnt, ekki takast.

Glendronach er Speyside viskí og notast nær eingöngu við sérrítunnur. Afraksturinn er mjög þungt, dökkt, sætt viskí en jafnvægið í því finnst mér algerlega framúrskarandi.

Kjarninn hjá þeim er 12, 15 og 18 ára. Reglulega koma einnig frá þeim cask strength eintunnungar sem eru miklar bombur.

Nýverið kom út 8 ára Glendronach, The Hielan.. Smakkaði það nýverið og var mjög hrifinn, að vanda. Var geymt í bæði Pedro Ximenes og Oloroso tunnum, rétt eins og sú 12 ára. Mjög mikill ávaxtakeimur, stórt, þykkt og kryddað. Léttara og mildara en eldri systkinin en samt, verandi frá Glendronach, mjög mikil fylling. Stórgott.

Published in: on 29/06/2015 at 15:24  Færðu inn athugasemd  

Nýtt smakk

Nýtt smakk. Austurrískur einmöltungur. Skelfing. Bragðast eins og ég ímynda mér að eimað lýsi smakkist. Ofsalega „off“ eitthvað. Skelfilegt eftirbragð. En áhugavert að prófa. Veist ekki hve gott gott er fyrr en þú prófar slæmt!

IMG_0022

Published in: on 28/04/2015 at 17:31  Færðu inn athugasemd  

Nýtt smakk

Ég lagði land undir fót nýverið og brá mér örskotstúr til Íslands.

Maður fer ekkert gegnum fríhöfnina nema maður grípi eina bokku með…skylda hvers manns að taka út tollinn!

Í þetta skiptið greip ég eina af víkingaseriunni frá Highland Park, Svenna vin okkar, Svein. Hún fæst eingöngu í fríhöfnum.

Það er engin aldurstilgreining frekar en vanalega á þessum útgáfum. Ég stóðst ekki mátið, þetta var eins lítra flaska og á fjári góðu verði. Bjóst kannski ekki við neinni flugeldasýningu en þó vissulega við góðum dropa eins og vanalega frá Highland Park.

Ég verð að segja að þetta fór fram úr mínum björtustu vonum. Ofsalega skemmtilegt, létt, ferskur appelsínu/sítruskeimur. Mestmegnis úr amerískri eik (bourbon tunnum) sem gefa nettan vanillukeim auk þess sem það er örlíttil vottur af kryddi og reyk þarna einhversstaðar.

Þetta eru kostakjör! Mæli algerlega með að grípa eina eigiði leið um fríhafnir. 37 pund fyrir líter.

IMG_0071

Published in: on 28/04/2015 at 17:24  Færðu inn athugasemd  
Tags: ,

Laphroaig QA cask, fríhafnarbokka.

Heilir og sælir góðir viskíhálsar. Ég er enn tölvulaus en vonandi fer eitthvað að gerast í þeim málum.
Varð að nefna að ég hnaut um fríhafnar-Laphroaig, QA Cask. Langsamlega langversti Lafroggur sem ég hef smakkað. Er mikill aðdáandi Lafroggs, og aldrei smakkað, segi ekki vondan heldur kannski vonbrigðulan, Frogg þar til nú. Ekkert í gangi, finnst eins og ég sé að drekka of-útvatnaðan og þynntan 10 ára. Alls ekkert að gerast. Falleinkunn. Drasl. Mæli alls ekki með QA Cask.

Published in: on 11/08/2014 at 12:17  Comments (4)  

Heimsókn í Eimverk:

Snemma í þessum þætti er litið inn hjá verksmiðjunni Eimverk.

http://www.n4.is/is/thaettir/file/matur-og-menning-food-and-fun-drykkir?fb_action_ids=531287773657928&fb_action_types=og.likes&fb_source=feed_opengraph&action_object_map=%7B%22531287773657928%22%3A569204166509803%7D&action_type_map=%7B%22531287773657928%22%3A%22og.likes%22%7D&action_ref_map=%5B%5D

Published in: on 26/02/2014 at 17:49  Færðu inn athugasemd  

Ellihrumur Laphroaig

Heil og sæl, og gleðilegt ár!
 
Í gær smakkaði ég Laphroaig, 10 ára, eimaðan fyrir hartnær 30 árum síðan. Sá sem færði mér flöskuna sagði að þetta hefði verið síðan Laphroaig ræktuðu og möltuðu allt sitt bygg sjálfir (framleiðslan er það umfangsmikil í dag að það er mest keypt frá býlum sem rækta fyrir þá). Ég er ekki með ártalið á hreinu verð ég að viðurkenna, en er nokkuð viss um að það hafi verið snemma á 9. áratugnum sem þeir fóru að kaupa annarsstaðar frá. Kauðinn sá er gaf mér þetta smakk var á því að það hefði verið um 1982-1983 cirka. Reyni að komast að því. Er kannski einhver hér með það á hreinu?
 
Ég hef heilsað upp á nokkra glasbotnana á 10 ára Lappanum sem er í gangi í dag og er vel kunnugur hvernig hann bragðast. Þegar ég lyktaði af þessu varð ég ögn hissa. Lyktaði eiginlega bara voða lítið eins og Laphroaig, miklu ávaxtakenndara og minni móreykur. „Ertu viss um að þetta sé Lafrojg“ spurði ég. Jújú, hann fullyrti það.
Þá kom að því að smakka og jú, þetta var Laphroaig! Létt og ávaxtakennt fyrst, líflegt, ferskt, perur, ananas jafnvel og slík áhrif en svo kom móreyksbomban! Og þvílík bomba. Miklu, miklu flóknara og margslungnara er Lappinn er í dag. Og jafnvel þótt skammturinn minn hafi verið agnarsmár lifði bragðið með mér heillengi. Stórfenglegt viskí. They don´t make ’em like they used to!
Published in: on 14/01/2014 at 15:49  Færðu inn athugasemd  

Blöndunarnámskeið hjá Compass Box

Ég er í svoddan stuði í dag að það er enn ein færslan væntanleg. Þetta er eins og Lundúnastrætóinn. Það kemur enginn heillengi og svo koma þrír í einu.

Í síðasta mánuði fórum við Matt úr búðinni ásamt téðum Artúri innkaupastjóra í heimsókn í Compass Box viskífyrirtækið sem staðsett er í vestur Lundúnum, niðri í Chiswick nánar tiltekið. Á Lundúnamælikvarða, ekkert svo langt frá því þar sem ég bý. Compass Box fyrirtækið framleiðir ekki viskí sem slíkt heldur kaupir viskí frá hinum og þessum verksmiðjum í Skotlandi og blandar sjálft. Flest sem þeir gera eru blöndur nokkurra (niður í tveggja) einmöltunga. Þeir eru með skrifstofu og tilraunastofu niðri í Chiswick þar sem gerðar eru tilraunir með mismunandi blöndur og það var einmitt þangað sem ferðinni var heitið.

Fengum fyrst snæðing á pöbb í grenndinni. Ég ákvað að prófa hamborgarann þeirra en hefði betur fengið mér eitthvað annað. Bretar eru ekki góðir í að gera hamborgara, með undantekningum vissulega; hef fengið marga góða, en fleiri vonda. Þessi var svona dæmigerður kjötbúðingur. Hvað um það, hamborgarinn var ekki ástæða þess að við vorum þarna. Eftir átið var skundað að skrifstofunni þar sem við fengum ágrip af sögu fyrirtækisins og allt það japl, jaml og fuður meðan við störðum eins og hungraðir úlfar á viskíið sem var á borðinu fyrir framan okkur.

Við smökkuðum allar tegundirnar sem þeir framleiða og jú, þeim tekst að blanda þessum viskíum lystilega saman. Ein blandan heitir Peat Monster sem samanstendur aðallega af Caol Ila og Ardmore. Vel reykt og fínt. Svo eru þarna stórgóð viskí eins og Spice Tree og Asyla.

http://www.compassboxwhisky.com/

Semsagt, við smökkuðum allt sem þeir gera og áttum að reyna að gera okkur í hugarlund hvaða viskí og í hvaða hlutföllum þau myndu blandast best saman. Fengum svo tilraunaglös og áttum að gera okkar eigin blöndu úr 5 viskíium og áttum að nota að minnsta kosti tvö. Ég notaði 4, 60% reykt og aðeins minna af hinum. Þau voru ónefnd nema bara sagt frá hvaða svæði og úr hvernig tunnu þau voru. Hin sem ég notaði voru 25% hálandaviskí úr franskri eik, 10 prósent grain whisky og 5% láglönd. Ég hef ekki smakkað blönduna mína enn, en þetta verður ekkert eðalviskí kannski! Lyktar alveg ágætlega þó. Það er viss list að blanda þessu saman svo vel megi vera. Þetta var afar áhugavert og skemmtilegt.

photo-6       photo-1

Seinna sama dag fórum við í Sipsmith ginverksmiðjuna í Hammersmith. Sipsmith framleiðir gin vissulega auk vodka og Summer Cup sem er líkjör byggður á gini, ekki ósvipaður Pimm’s en bara miklu betri.

Sipsmith er fyndin verksmiðja, í gömlum bílskúr í íbúðagötu. Pínu lítið pleis með eina eimingarvél. Sjá mynd. Er skilst mér fyrsta ginverksmiðjan í London í um 200 ár til að fá starfsleyfi.

photo-3  photo-4

photo-2

Eimingargræjuna keyptu þeir í Þýskalandi, létu taka í sundur og flytja hingað til London. Sagan segir að annar eigandanna hafi verið með málbandið á henni, hringt í kollega sinn í London til að láta hann mæla lofthæðina og einungins örfáum sentimetrum hafi munað.

Fengum ágrip af sögunni, sem er ekki löng og smökkuðum svo veigarnar. Ég er ekki mikið fyrir gin verð ég að viðurkenna en þetta þótti mér bara alls ekki svo slæmt, meira að segja fjári gott. Jafnvel vodkinn þeirra var góður og það var meira að segja bragð af honum! Sætur, sítruskeimur. Þeir gera einnig Sloe Gin, sem er gin gert m.a. með Sloe berjum, sem mér skilst að útleggist á ástkæra, ylhýra sem þyrniplómur. Hef ekki mikla reynslu af þyrniplómugini svo sem, en þetta var fjári gott. Svolítið súrt en mun betra en þau sem ég hef smakkað hingað til. SummerCup líkjörinn þeirra er afar sætur og skemmtilegur.

Semsagt, góður dagur á flakki um vestur Lundúni.

Published in: on 13/05/2013 at 14:14  Færðu inn athugasemd