Kilkerran 12 ára

Annað nýtt viskí sem verðskuldar færslu er Kilkerran 12 ára. Selst hér á rétt rúm 30 pund, og myndi ég segja að það væri nánast ómögulegt að finna viskí á því verði sem myndi slá því við.

Kilkerran er í eigu Springbank, en verksmiðjan sjálf heitir GlenGyle er í Campbeltown á Kintyreskaganum,  við vesturströndina, á milli Isle of Islay og Isle of Arran. Ákveðið var að nefna viskíið ekki eftir verksmiðjunni því „glen“ er nú til dags frekar tengt Speyside viskíum. Auk þess er til blandað viskí með sama nafni.

Á 19. öld voru hvorki fleiri nér færri en 34 verksmiðjur í Campbeltown þegar mest var en flestar lokuðu þær svo á þeirri 20. og húsakostur þeirra flestra rifinn. GlenGyle lokaði árið 1925 eftir að hafa verið opin síðan 1873. William nokkur Mitchell opnaði hana á sínum tíma, en hann átti einnig Springbank þá. Springbank er reyndar enn í eigu Mitchell fjölskyldunnar.

Eins og fyrr segir, var gríðarmikil viskíframleiðsla í Campbeltown á þessum tíma. Stór ástæða fyrir því var staðsetning bæjarins, en þar er mjög góð höfn. Með tilkomu lestakerfis á meginlandinu, og þar af leiðandi betri samgangna, þá fóru verksmiðjur að spretta upp víða á Speyside svæðinu. Campbeltown verksmiðjurnar margar hverjar lentu í ströggli vegna uppgangs verksmiðjanna í Speyside og sumar m.a.s. fóru að reyna að framleiða meira og meira, og gefa því styttri tíma í tunnum, sem kom niður á gæðum viskísins. Fólk fór þá frekar að leita til annarra svæða og viskíframleiðsla í Campbeltown nánast lagðist af. Campbeltown datt úr tísku. Einungis voru tvær verksmiðjur eftir, Springbank og Glen Scotia, sem enn lifa góðu lífi.

Húsnæði GlenGyle var aldrei rifið og var í sífelldri notkun frá lokun viskíframleiðslunnar, m.a. sem félagsheimili og æfingasvæði skotvopnafélags. Húsunum var vel haldið við og þegar húsnæðið var laust kringum árið 2000, ákvað Springbank að endurvekja viskíframleiðslu í þeim.

Vinna við endurreisn GlenGyle hófst árið 2000 og viskíframleiðsla hófst fjórum árum síðar, 2004. Síðan þá hafa komið út reglulega mjög ung viskí svona til að koma einhverju á markað og leyfa fólki að smakka og fylgjast með. Ég hef smakkað held ég nánast allar útgáfur frá 2009 ca. og verið mjög hrifinn.

Meiningin var frá upphafi að framleiða létt, ávaxtakennt viskí sem er mjög léttreykt og það er akkúrat það sem það er.

Síðan, fyrir nokkrum vikum kom bomban frá þeim, 12 ára Kilkerran. Óhemju gott fyrir peninginn, er hálf hissa á verðlaginu. Þú færð held ég ekki betra viskí fyrir þennan pening og jafnvel mun meiri pening.

Þroskað 70% í búrbontunnu og 30% í sérrí.

Það mætir nefinu með litlum reykjarkeim, bygg, ávöxtur , sítrus, vanilla … svo mikið í gangi.

Springur út á tungunni, græn epli, ferskjur, vanilla og rosalega mildur móreykur, afskaplega vel balanserað. Dálítill viðarkeimur, sérríáhrifin koma vel fram en eins og fyrr segir, jafnvægið er nánast fullkomið. Örlar á sjávarseltu.

Sennilega besta nýja viskí ársins 2016 að mínu mati. Toppeinkunn. Svo sé nú ekki minnst á verðið.

„Algert möst“ að prófa. Spurning hvort Maltviskífélagið eigi eitthvað eftir.

klkob-12yo

 

 

Published in: Óflokkað on 06/10/2016 at 13:41  Comments (3)  

Kilchoman Sauternes cask

Eins og undanfarin ár þá fór ég á The Whisky Show um helgina, á mánudaginn reyndar, því þá er Trade Day. Kosturinn við það er sá að það er mun fámennara og meiri tími gefst til að spjalla og bera saman bækur. Ókosturinn er sá að slatti er búinn því festivalið hefur verið í gangi 2 daga áður.

Þó var vissulega mjög margt að smakka. Einn hápunktanna var ný útgáfa frá Kilchoman,  úr Sauternes tunnum. Var ögn skeptískur á það því mér finnst reykur og víntunnur oft ekki fara vel saman, með undantekningum vissulega. Ég er mikill aðdáandi Kilchoman, og mér finnst hreinlega stórmerkilegt hvað viskíin þeirra eru þroskuð og margslungin þrátt fyrir ungan aldur. Kilchoman verksmiðjan opnaði árið 2005 og er því ekki með nein sérlega gömul viskí á sínum snærum. Sauternes útgáfan er einungis 5 ára gömul. 50% abv og upplagið er 6000 flöskur.

Virkilega gott jafnvægi milli reyksins og sætleika víntunnunnar. Mórinn er mikill og svolítið yfirgnæfandi til að byrja með en jafnar sig svo út, sætleikinn úr víninu minnir á sig, ferskur sítruskeimur í bland við móreykinn sem einkennir Kilchoman. Eftirbragðið er svo aftur töluvert reykt og endist heillengi.

Virkilega hrifinn, mæli með smakki hafiði tök á.sauternes-2016-hi

Þess má geta að sauternes vín er franskt, mjög sætt hvítvín.

 

Published in: Óflokkað on 06/10/2016 at 12:17  Færðu inn athugasemd