Strathearn

Önnur ný verksmiðja heitir Strathearn. Sú var opnuð árið 2013 og í október sama ár hófst framleiðslan. Strathearn stendur við 1300 manna þorpið Methven sem er skammt vestur af Perth, sem er ögn betur þekktur bær.

Edradour hefur hingað til stært sig af því að vera minnsta viskíverksmiðja Skotlands, en Strathearn hefur tekið fram úr þeim, ef svo má að orði komast. Ársframleiðslugeta Edradour er 130.000 lítrar á ári, en framleiðslugeta Strathearn er einungis 30.000 ltr. Abhainn Dearg (Framb. Avín Djarrek)  á Isle of Lewis eru þó hugsanlega enn smærri, en það munar ekki miklu. Að þeim síðar.

Eins og fyrr sagði er Strathearn agnarsmá verksmiðja með litla eimara. Strahearn notar byggtegund sem fáar aðrar verksmiðjur nota nú til dags. Það kallast Maris Otter Barley og er víst sjaldan notað því það þykir frekar „latt“ og dýrt og auk þess erfitt að fá það til að spíra. Með þolinmæði er þó hægt að notast við það og á það að gefa afar mjúkt og gott bragð. Einnig hafa þeir verið að prófa sig áfram með „bere“ bygg, sem vex aðallega á Orkneyjum. Talið er að víkingar hafi komið með þessa tegund byggs yfir til Bretlandseyja á 8. öld. Bere bygg vex reyndar einnig á Islay, en eingöngu síðan 2006 þegar Bruichladdich verksmiðjan lét planta því þar fyrir sitt Bere Barley single malt.

Samhliða viskíi er einnig framleitt þar gin, eins og svo margar nýjar verksmiðjur gera meðan beðið er eftir að viskíið þroskist. Ég er svo sem ekki mikill gin maður en hef smakkað allt það gin sem þeir hafa framleitt og verð að segja að ég hef smakkað verri gin. Mér fannst þessi m.a.s. virkiega góð. Hvað um það, þetta er viskíblogg er það ekki?

Ég hef ekki enn gerst svo frægur að smakka viskíið þeirra (enda er framleiðslan þeirra ekki enn orðin viskí), en þegar það gerist, þá munu detta inn nokkrar línur hér.

Nýlega komu frá þeim tilraunaútgáfur, „viskí“ sem hefur verið þroskað í annarskonar viðartunnum en eik; kastaníuvið, mórberjavið og kirsuberjavið, en eins og við vitum má ekki kalla viski „viskí“ nema það komi úr eik. Því brugðu þeir á það ráð að kalla fyrirbærið Uisge Beatha (framb: Ujsge Ba), sem er fornt, galískt heiti yfir viskí, eða vatn lífsins  (aqua vitae) eins og menn sögðu áður fyrr í óld deis. „Uisge Beatha“ þróaðist svo yfir „uisge“ og svo loks í Whisk(e)y.

Bæði verður framleitt reykt (35ppm) og óreykt viskí hjá Strathearn og eru fyrstu einmöltungar væntanlegir síðla árs 2016. Framleiðslustjórinn heitir Zak Shenfield og er einungis 22ja ára, en hefur þegar fengið nafnbótina Scotland´s Young Distiller of the year í Scottish Craft Distillers Association Awards.

Hér er svo mynd af manninum á bakvið herlegheitin, Tony Reeman-Clark og eins og sést, þá er hann sennilega ekki alinn upp í Gaggó Vest, en burtséð frá því þá eru eimararnir ekki sérlega stórir.tony and stills

http://www.strathearndistillery.com/

AA-strathearn2shotBíð spenntur eftir fyrsta smakki.

Published in: on 04/02/2016 at 16:51  Færðu inn athugasemd