Nýjar verksmiðjur; Wolfburn.

Það er heilmikil uppsveifla í viskíbransanum þessa dagana, um allan heim. Til að mynda eru japönsk viskí að verða illfáanleg, vegna gríðarlegrar eftirspurnar. Margar verksmiðjur eiga ekki nóg á lager til að nota aldurstilgreiningar lengur og því hafa þær hafa neyðst til að drýgja sína framleiðslu með yngri viskíum. Þekktasta dæmið er Macallan, sem er hætt með 10,12 og 15 ára og notast núna við nöfn, frekar en ártöl. Macallan Gold er t.a.m. gamla 10 ára drýgt með yngra viskíi. Fleiri hafa fylgt í kjölfarið. Ástæðan er einfaldlega sú að fyrir 10-15 árum síðan var ekki framleitt nóg til að anna eftirspurn í dag. Japönsk viskí eru svo kafli útaf fyrir sig, þökk sé aðallega, Jim Murray og bókinni hans með hógværa titilinn, The Whisky Bible.

Í Skotlandi eru að skjóta upp kollinum verksmiðjur hér og þar, og er það vel.  Eftirspurnin eftir skosku viskí er alltaf að aukast. Á 9. áratugnum lokuðu margar, sérstaklega árið 1983 þegar við misstum Port Ellen, Brora, Dallas Dhu, Banff, Glen Albyn, Glenlochy, Glen Mhor, Glenury Royal, og St. Magdalene. 1985 lokuðu Coleburn, Convalmore, Glen Esk og Millburn.

10. áratugurinn var ekki góður til að byrja með heldur þegar Rosebank, Lochside og Littlemill lögðu upp laupana.

Síðan þessi ósköp gengur yfir hefur eftirspurnin aukist aftur og árið 1995 opnaði Arran Distillery á eyjunni Arran við vesturströndina.

Arran framleiðir óreykt (með undantekningum) létt, ferskt viskí með sítruskenndum ávaxtakeim.

Árið 2005 opnaði Kilchoman á Islay. Fyrsta nýja verksmiðjan byggð á Islay í 124 ár. Þeir malta sitt bygg að hluta til sjálfir, en fá megnið frá Port Ellen, sem nú er eingöngu möltunarverksmiðja og sér mörgum viskíverksmiðjum fyrir reyktu byggi/malti.

Það bygg sem Kilchoman fær frá Port Ellen er reykt jafn mikið og Ardbeg, semsagt alger reykbomba en það sem er maltað á staðnum er u.þ.b. helmingi minna reykt, eða um 25ppm. Kilchoman er ótrúlegt viskí eiginlega. Að vera svona vel þroskað miðað við hvað það er ungt (núverandi útgáfur eru um 6-7 ára) og mikið reykt er alveg þrælmagnað. Hef smakkað mörg ung og reykt viskí og þau komast ekki nálægt Kilchoman í gæðum. Gott dæmi er nýja, enska viskíið, St. George´s, sem þó hefur tekið miklum framförum undanfarin 2 ár eða svo.

Arran og Kilchoman eru viskí sem er komin töluverð reynsla á. Hinsvegar eru að gægjast fram í dagsljósið verksmiðjur hér og þar um landið, ýmist á teikniborðinu, í byggingu eða um það bil að byrja að framleiða.

 

Lítum á Wolfburn, sem er nyrsta verkmiðjan á meginlandinu, tók þar fram úr Pulteney sem stendur við Wick á norð-austur horninu.

Thurso

Wolfburn var stofnað árið 2012 og stendur í iðnaðarhverfi við útjaðra bæjarins Thurso og er heldur óhefðbundin í útliti.

aa117

Árið 1821 var stofnuð viskíverksmiðja undir sama nafni, en hún lokaði seinnipart sömu aldar. Þessi nýja er ekki langt frá staðnum þar sem sú gamla stóð. Verksmiðjustjórinn heitir Shane Fraser og hafði starfað áður hjá Lochnagar, Oban og síðast í 7 ár verið verið verksmiðjustjóri hjá Glenfarclas, svo að kauði ætti að vita hvað hann syngur.

Þeir voru ekkert að tvínóna við hlutina og fyrstu droparnir runnu úr eimurunum í janúar 2013. Búist er við fyrsta Scotch-einmöltungnum á næstum vikum eða mánuðum.

Meiningin er að framleiða frekar létt og mjúkt viskí, en sennilega með örlitlum, reyktum, mó-keim því það er að miklu leyti þroskað í gömlum, og litlum (quarter casks) frá einhverri verksmiðju á Islay. Veit ekki hvaða, en grunar Laphroaig. Auk þess verður einhver hluti af framleiðslunni verður reyktur, því 3-4 mánuði á ári er framleitt léttmóreykt viskí. Spurning hvort það verði blandað við óreyktu framleiðsluna eða þeir framleiði 2 mismunandi viskí.

Spennandi að sjá og smakka.

Published in: on 21/01/2016 at 17:32  Færðu inn athugasemd  

Enn ný verksmiðja

Átöppunarfyrirtækið Hunter Laing hefur ákveðið að fara að framleiða sitt eigið viskí. Verksmiðjan verður á Islay, í Ardnahoe sem er rétt sunnan við Bunnahabhain, á norð-austur hluta eyjarinnar. Búist er við að framleiðsla hefjist síðla árs 2017 og verða þeir hugsanlega á undan Gartbreck að opna, vegna tafa hjá þeim síðarnefndu.

Þetta er ein fjölmargra nýrra verksmiðja í Skotlandi. Aðrar eru Gartbreck, Wolfburn, Strathearn, Kingsbarns,Ballindalloch, Ardnamurchan, Annandale, Daftmill (opnaði 2005 en lítil virkni enn sem komið er), Abhainn Dearg, Ailsa Bay, Roseisle, Eden Mill, Dalmunach, Glasgow distillery og Harris distillery, Raasay og Barra. Þetta eru heilar hvað, 18 nýjar verksmiðjur. Sem er hreint ótrúlegt. Best að setjast yfir bækurnar og stúdera þetta allt saman…

Published in: on 21/01/2016 at 16:42  Færðu inn athugasemd