Ellihrumur Laphroaig

Heil og sæl, og gleðilegt ár!
 
Í gær smakkaði ég Laphroaig, 10 ára, eimaðan fyrir hartnær 30 árum síðan. Sá sem færði mér flöskuna sagði að þetta hefði verið síðan Laphroaig ræktuðu og möltuðu allt sitt bygg sjálfir (framleiðslan er það umfangsmikil í dag að það er mest keypt frá býlum sem rækta fyrir þá). Ég er ekki með ártalið á hreinu verð ég að viðurkenna, en er nokkuð viss um að það hafi verið snemma á 9. áratugnum sem þeir fóru að kaupa annarsstaðar frá. Kauðinn sá er gaf mér þetta smakk var á því að það hefði verið um 1982-1983 cirka. Reyni að komast að því. Er kannski einhver hér með það á hreinu?
 
Ég hef heilsað upp á nokkra glasbotnana á 10 ára Lappanum sem er í gangi í dag og er vel kunnugur hvernig hann bragðast. Þegar ég lyktaði af þessu varð ég ögn hissa. Lyktaði eiginlega bara voða lítið eins og Laphroaig, miklu ávaxtakenndara og minni móreykur. „Ertu viss um að þetta sé Lafrojg“ spurði ég. Jújú, hann fullyrti það.
Þá kom að því að smakka og jú, þetta var Laphroaig! Létt og ávaxtakennt fyrst, líflegt, ferskt, perur, ananas jafnvel og slík áhrif en svo kom móreyksbomban! Og þvílík bomba. Miklu, miklu flóknara og margslungnara er Lappinn er í dag. Og jafnvel þótt skammturinn minn hafi verið agnarsmár lifði bragðið með mér heillengi. Stórfenglegt viskí. They don´t make ’em like they used to!
Published in: on 14/01/2014 at 15:49  Færðu inn athugasemd