Blöndunarnámskeið hjá Compass Box

Ég er í svoddan stuði í dag að það er enn ein færslan væntanleg. Þetta er eins og Lundúnastrætóinn. Það kemur enginn heillengi og svo koma þrír í einu.

Í síðasta mánuði fórum við Matt úr búðinni ásamt téðum Artúri innkaupastjóra í heimsókn í Compass Box viskífyrirtækið sem staðsett er í vestur Lundúnum, niðri í Chiswick nánar tiltekið. Á Lundúnamælikvarða, ekkert svo langt frá því þar sem ég bý. Compass Box fyrirtækið framleiðir ekki viskí sem slíkt heldur kaupir viskí frá hinum og þessum verksmiðjum í Skotlandi og blandar sjálft. Flest sem þeir gera eru blöndur nokkurra (niður í tveggja) einmöltunga. Þeir eru með skrifstofu og tilraunastofu niðri í Chiswick þar sem gerðar eru tilraunir með mismunandi blöndur og það var einmitt þangað sem ferðinni var heitið.

Fengum fyrst snæðing á pöbb í grenndinni. Ég ákvað að prófa hamborgarann þeirra en hefði betur fengið mér eitthvað annað. Bretar eru ekki góðir í að gera hamborgara, með undantekningum vissulega; hef fengið marga góða, en fleiri vonda. Þessi var svona dæmigerður kjötbúðingur. Hvað um það, hamborgarinn var ekki ástæða þess að við vorum þarna. Eftir átið var skundað að skrifstofunni þar sem við fengum ágrip af sögu fyrirtækisins og allt það japl, jaml og fuður meðan við störðum eins og hungraðir úlfar á viskíið sem var á borðinu fyrir framan okkur.

Við smökkuðum allar tegundirnar sem þeir framleiða og jú, þeim tekst að blanda þessum viskíum lystilega saman. Ein blandan heitir Peat Monster sem samanstendur aðallega af Caol Ila og Ardmore. Vel reykt og fínt. Svo eru þarna stórgóð viskí eins og Spice Tree og Asyla.

http://www.compassboxwhisky.com/

Semsagt, við smökkuðum allt sem þeir gera og áttum að reyna að gera okkur í hugarlund hvaða viskí og í hvaða hlutföllum þau myndu blandast best saman. Fengum svo tilraunaglös og áttum að gera okkar eigin blöndu úr 5 viskíium og áttum að nota að minnsta kosti tvö. Ég notaði 4, 60% reykt og aðeins minna af hinum. Þau voru ónefnd nema bara sagt frá hvaða svæði og úr hvernig tunnu þau voru. Hin sem ég notaði voru 25% hálandaviskí úr franskri eik, 10 prósent grain whisky og 5% láglönd. Ég hef ekki smakkað blönduna mína enn, en þetta verður ekkert eðalviskí kannski! Lyktar alveg ágætlega þó. Það er viss list að blanda þessu saman svo vel megi vera. Þetta var afar áhugavert og skemmtilegt.

photo-6       photo-1

Seinna sama dag fórum við í Sipsmith ginverksmiðjuna í Hammersmith. Sipsmith framleiðir gin vissulega auk vodka og Summer Cup sem er líkjör byggður á gini, ekki ósvipaður Pimm’s en bara miklu betri.

Sipsmith er fyndin verksmiðja, í gömlum bílskúr í íbúðagötu. Pínu lítið pleis með eina eimingarvél. Sjá mynd. Er skilst mér fyrsta ginverksmiðjan í London í um 200 ár til að fá starfsleyfi.

photo-3  photo-4

photo-2

Eimingargræjuna keyptu þeir í Þýskalandi, létu taka í sundur og flytja hingað til London. Sagan segir að annar eigandanna hafi verið með málbandið á henni, hringt í kollega sinn í London til að láta hann mæla lofthæðina og einungins örfáum sentimetrum hafi munað.

Fengum ágrip af sögunni, sem er ekki löng og smökkuðum svo veigarnar. Ég er ekki mikið fyrir gin verð ég að viðurkenna en þetta þótti mér bara alls ekki svo slæmt, meira að segja fjári gott. Jafnvel vodkinn þeirra var góður og það var meira að segja bragð af honum! Sætur, sítruskeimur. Þeir gera einnig Sloe Gin, sem er gin gert m.a. með Sloe berjum, sem mér skilst að útleggist á ástkæra, ylhýra sem þyrniplómur. Hef ekki mikla reynslu af þyrniplómugini svo sem, en þetta var fjári gott. Svolítið súrt en mun betra en þau sem ég hef smakkað hingað til. SummerCup líkjörinn þeirra er afar sætur og skemmtilegur.

Semsagt, góður dagur á flakki um vestur Lundúni.

Published in: on 13/05/2013 at 14:14  Færðu inn athugasemd  

The URI to TrackBack this entry is: https://viskiblogg.wordpress.com/2013/05/13/blondunarnamskeid-hja-compass-box/trackback/

RSS feed for comments on this post.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: