Viskíhornið Veftímarit

spons

Kæru viskíunnendur, nú er Viskíhornið loksins orðið að veruleika!

Viskíhornið er eina íslenska veftímaritið sem fjallar um ALLT tengt viskíi, fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna

Fylgstu með okkur á www.viskihornid.com og skráðu þig á póstlistann okkar hér 

Published in: Óflokkað on 12/03/2017 at 17:33  Comments (1)  

Ný síða

Eins og ég nefndi hér áður, þá er ég þessa dagana að vinna í nýrri síðu sem verður með breyttum áherslum. Er þessa stundina að yfirfara og breyta gömlum færslum og henda út mörgu sem á ekki við lengur og/eða fellur ekki undir áherslubreytingarnar sem ég ætla að kýla í gegn. Margt hefur breyst síðan þær voru skrifaðar. Ég þakka þolinmæðina (þetta tekur allt sinn tíma) og garantera að síðan verður mun skemmtilegri aflestrar og fróðlegri, og umfram allt aktívari, en verið hefur.

Twitter og facebook síðurnar kem ég til með að taka niður líka og setja upp aðrar í staðinn. Held þeim þó inni þar til nýja síðan er klár. Er að velta fyrir mér hvort ég ætti að leggja meiri áherslu á Twitter eða Facebook, eða reyna að hafa það jafnt. Hvað finnst lesendum?

Komi upp einhverjar hugmyndir, fyrirspurnir eða beiðnir þá má endilega setja þær inn hér.

Bestu kveðjur úr kuldanum í London

Kobbi

 

Published in: Óflokkað on 22/01/2017 at 14:22  Comments (1)  

Ný síða

Heilir og sælir góðir viskíhálsar.

Ég er um þessar mundir að vinna í nýrri síðu með nýjar áherslur og fara yfir það sem ég hef skrifað á bloggsiðuna undanfarin ár. Margt þar hefði betur mátt fara þó margt væri kannski gott. Þessi vinna tekur einhverja stund vissulega, en það verður þess virði. Þakka þolinmæðina.

Published in: Óflokkað on 07/01/2017 at 20:34  Færðu inn athugasemd  

Kilkerran 12 ára

Annað nýtt viskí sem verðskuldar færslu er Kilkerran 12 ára. Selst hér á rétt rúm 30 pund, og myndi ég segja að það væri nánast ómögulegt að finna viskí á því verði sem myndi slá því við.

Kilkerran er í eigu Springbank, en verksmiðjan sjálf heitir GlenGyle er í Campbeltown á Kintyreskaganum,  við vesturströndina, á milli Isle of Islay og Isle of Arran. Ákveðið var að nefna viskíið ekki eftir verksmiðjunni því „glen“ er nú til dags frekar tengt Speyside viskíum. Auk þess er til blandað viskí með sama nafni.

Á 19. öld voru hvorki fleiri nér færri en 34 verksmiðjur í Campbeltown þegar mest var en flestar lokuðu þær svo á þeirri 20. og húsakostur þeirra flestra rifinn. GlenGyle lokaði árið 1925 eftir að hafa verið opin síðan 1873. William nokkur Mitchell opnaði hana á sínum tíma, en hann átti einnig Springbank þá. Springbank er reyndar enn í eigu Mitchell fjölskyldunnar.

Eins og fyrr segir, var gríðarmikil viskíframleiðsla í Campbeltown á þessum tíma. Stór ástæða fyrir því var staðsetning bæjarins, en þar er mjög góð höfn. Með tilkomu lestakerfis á meginlandinu, og þar af leiðandi betri samgangna, þá fóru verksmiðjur að spretta upp víða á Speyside svæðinu. Campbeltown verksmiðjurnar margar hverjar lentu í ströggli vegna uppgangs verksmiðjanna í Speyside og sumar m.a.s. fóru að reyna að framleiða meira og meira, og gefa því styttri tíma í tunnum, sem kom niður á gæðum viskísins. Fólk fór þá frekar að leita til annarra svæða og viskíframleiðsla í Campbeltown nánast lagðist af. Campbeltown datt úr tísku. Einungis voru tvær verksmiðjur eftir, Springbank og Glen Scotia, sem enn lifa góðu lífi.

Húsnæði GlenGyle var aldrei rifið og var í sífelldri notkun frá lokun viskíframleiðslunnar, m.a. sem félagsheimili og æfingasvæði skotvopnafélags. Húsunum var vel haldið við og þegar húsnæðið var laust kringum árið 2000, ákvað Springbank að endurvekja viskíframleiðslu í þeim.

Vinna við endurreisn GlenGyle hófst árið 2000 og viskíframleiðsla hófst fjórum árum síðar, 2004. Síðan þá hafa komið út reglulega mjög ung viskí svona til að koma einhverju á markað og leyfa fólki að smakka og fylgjast með. Ég hef smakkað held ég nánast allar útgáfur frá 2009 ca. og verið mjög hrifinn.

Meiningin var frá upphafi að framleiða létt, ávaxtakennt viskí sem er mjög léttreykt og það er akkúrat það sem það er.

Síðan, fyrir nokkrum vikum kom bomban frá þeim, 12 ára Kilkerran. Óhemju gott fyrir peninginn, er hálf hissa á verðlaginu. Þú færð held ég ekki betra viskí fyrir þennan pening og jafnvel mun meiri pening.

Þroskað 70% í búrbontunnu og 30% í sérrí.

Það mætir nefinu með litlum reykjarkeim, bygg, ávöxtur , sítrus, vanilla … svo mikið í gangi.

Springur út á tungunni, græn epli, ferskjur, vanilla og rosalega mildur móreykur, afskaplega vel balanserað. Dálítill viðarkeimur, sérríáhrifin koma vel fram en eins og fyrr segir, jafnvægið er nánast fullkomið. Örlar á sjávarseltu.

Sennilega besta nýja viskí ársins 2016 að mínu mati. Toppeinkunn. Svo sé nú ekki minnst á verðið.

„Algert möst“ að prófa. Spurning hvort Maltviskífélagið eigi eitthvað eftir.

klkob-12yo

 

 

Published in: Óflokkað on 06/10/2016 at 13:41  Comments (3)  

Kilchoman Sauternes cask

Eins og undanfarin ár þá fór ég á The Whisky Show um helgina, á mánudaginn reyndar, því þá er Trade Day. Kosturinn við það er sá að það er mun fámennara og meiri tími gefst til að spjalla og bera saman bækur. Ókosturinn er sá að slatti er búinn því festivalið hefur verið í gangi 2 daga áður.

Þó var vissulega mjög margt að smakka. Einn hápunktanna var ný útgáfa frá Kilchoman,  úr Sauternes tunnum. Var ögn skeptískur á það því mér finnst reykur og víntunnur oft ekki fara vel saman, með undantekningum vissulega. Ég er mikill aðdáandi Kilchoman, og mér finnst hreinlega stórmerkilegt hvað viskíin þeirra eru þroskuð og margslungin þrátt fyrir ungan aldur. Kilchoman verksmiðjan opnaði árið 2005 og er því ekki með nein sérlega gömul viskí á sínum snærum. Sauternes útgáfan er einungis 5 ára gömul. 50% abv og upplagið er 6000 flöskur.

Virkilega gott jafnvægi milli reyksins og sætleika víntunnunnar. Mórinn er mikill og svolítið yfirgnæfandi til að byrja með en jafnar sig svo út, sætleikinn úr víninu minnir á sig, ferskur sítruskeimur í bland við móreykinn sem einkennir Kilchoman. Eftirbragðið er svo aftur töluvert reykt og endist heillengi.

Virkilega hrifinn, mæli með smakki hafiði tök á.sauternes-2016-hi

Þess má geta að sauternes vín er franskt, mjög sætt hvítvín.

 

Published in: Óflokkað on 06/10/2016 at 12:17  Færðu inn athugasemd  

Glenfiddich Experimental Series

Fór á kynningu í vikunni þar sem Brian Kinsman Malt Master hjá Glenfiddich hélt tölu um nýjustu afurðir frá þeirri mætu verksmiðju; Experimental Series. Fyrstu útgáfurnar í þeirri seríu voru kynntar, IPA og XX.
IPA er þroskað í tunnum sem innihéldu IPA bjór frá Speyside Brewery í einn mánuð áður en voru fylltar af Fiddich viskíi. Aldurinn er algert leyndó en þegar ég gekk á Brian (hann var sessunautur minn í matnum, en boðið var upp á þríréttaða máltíð) þá eiginlega gaf hann í skyn að elsta viskíið væri 10-12 ára, er ég las milli línanna, en hann vildi ekkert segja meir, algert leyndó.

Hitt viskíið er Glenfiddich XX (Twenty). GF er með 20 ‘brand ambassadors’ á sínum snærum um allan heim. Allir 20 voru kallaðir til og sleppt lausum í einu vöruhúsa GF þar sem tunnur eru geymdar. Þau vissu ekki hvað til stóð en voru beðin að velja eina tunnu hvert. Ekkert smakk, heldur völdu tunnu bara byggt á hvað stóð á lokinu, aldur og hvað var áður í tunnunni.
Að því loknu var þeim tilkynnt að þau hefðu rétt í þessu valið næstu útgáfu GF, The XX. Brian tók svo þessar tunnur og blandaði þeim saman eftir kúnstarinnar reglum og það er The Twenty.
Glenfiddich voru afar rausnarlegir þetta kvöld, GF kokkteilar, þríréttað og eins mikið af IPA og XX eins og maður gat/vildi í sig látið. Ekki nóg með það heldur gáfu þeir þeim sem boðið var á þennan viðburð (20 manns) eina flösku af hvoru.
Hripa niður bragðpunkta von bráðar

Published in: Óflokkað on 03/09/2016 at 12:12  Færðu inn athugasemd  

Að lykta af viskíi

Lyktin er afar stór partur af því að smakka viskí.

Mjög oft einblínir fólk að mestu á bragðið, hvernig viskíið bragðast á tungunni, dembir sér oft og tíðum beint í það að bragða viskíið án þess nokkurn tímann að lykta almennilega af því.

Fróðir menn segja að nefið skynji mun fleiri mismunandi lyktir en munnurinn skynji brögð. Oftast er talað um 4 mismunandi brögð sem manneskjan skynjar; sætt, súrt, salt og beiskt.

Nefið á að skynja mun fleiri mismunandi tegundir lykta og er því mjög mikilvægt í því skemmtilega ferli sem viskísmökkun er.

Þegar ég smakka viskí, þá eyði ég oft heillöngum tíma bara að lykta af því, reyna að greina hin mörgu mismunandi blæbrigði sem geta verið í einmöltungsviskíi. Svo, þegar því verkefni er lokið, þá er spennandi að smakka viskíið. Oft kemur það manni mjög á óvart eftir að hafa eytt löngum tíma í að þefa af því, því bragðið er oft töluvert öðruvísi en maður bjóst við.

Síðan er líka skemmtilegt að setja sama viskíið í tvö glös. Lykta af öðru beint af kúnni, og hinu með dropa af vatni. Viskí breytist nefnilega heilmikið með viðbættu vatni. Flest til hins betra. Vatnið losar um viskíið, opnar það, og í mörgum tilfellum finnst mér það verða sætara. Fer eftir tegundum vissulega. Það verða efnafræðilegar breytingar í vatni lífsins þegar venjulegu vatni er bætt út í það sem hafa töluverð áhrif á lokaútkomuna. Að smakka sama viskíið hlið við hlið, með og án vatns er afar forvitnilegt og eitthvað sem ég sannarlega mæli með að gera. Og ef þið hafið tíma og nennu, þá er kannski ráð að skvetta í þriðja glasið og geyma það lengur. Sjá hvernig það breytist er það “andar”.

Hvernig er svo best að smakka viskí?

Glasið skiptir öllu máli. Öllu segi ég! Best er að hafa það fremur lítið, belgmikið um miðjuna sem svo þrengist þegar ofar dregur. Glencairn glösin eru best til þess at arna, að mínu mati.

Reyndar má nota hvaða glös sem er sem falla að þessari lýsingu að ofan. Það hefur ekki verið auðvelt að nálgast þessi glös á Íslandi, en með tilkomu aukins áhuga á Íslandi á viskíi hefur einn einstaklingur tekið upp innflutning á þeim. Hann má finna á facebook undir heitinu Viskí áhugamál.

Glasið já … það er gríðarlega mikilvægt. Ekki notast við þessi “klassísku” viskíglös sem þið sjáið í bíómyndunum, svona gríðarsver tunnuglös sem eru jafn sver að ofan og neðan, sívöl. Ég hef komið að því hér annarsstaðar á blogginu að þau séu alveg bönnuð! Þau eru síðan á bannárunum þegar Kanar drukku allskonar óþverra og það þurfti að vera pláss fyrir bunka af klökum til að deyfa óbragðið. Einnig tíðkast þar “scotch&soda” sem þarf stærri glös. Síðan rötuðu þessir hlunkar í Hollywoodmyndir og sjarmatröll sem Cary Grant o.fl. sáust þamba úr þessum tunnum. Við þurfum ekkert slíkt, enda með háklassa viskí sem þurfa enga klaka og drekkast bara “neat” eins og sagt er.

Hellið í glasið, barmafullt! Neinei, vissulega ekki, bara rétt eins og sést á myndinni að ofan, ekki meira.

Lyktið af glasinu úr smá fjarlægð, snúið glasinu og látið viskíið þeytast aðeins um ofan´í. Lyktið aftur, enn úr kannski 10-20 sentimetra fjarlægð og finnið hvernig lyktin skýst á móti ykkur, lóðrétt beint upp úr glasinu. Ekki troða nefinu ofan í til að byrja með. Leggið nefið varlega að toppi glassins og andið djúpt. Varlega, sérstaklega af þið eruð með “cask strength” viskí sem oft er að styrkleika upp á 55-60 prósent. Sé nebbanum troðið ofan í glas með svo sterku áfengi, þá getur komið upp brunatilfinning í nösunum sem skemmir upplifunina. Eitt trix er svolítið skemmtilegt. Það er að setja smá viskí á handarbakið og nudda þar til það þornar. Lykta svo af handarbakinu. Mæli með að þið prófið það.

Svo er bara að lykta og lykta, reyna að sjá fyrir sér hvað það er sem lyktin minnir þig á. Eru það epli? Ávextir? Hunang? Karamella? Gras? Mold? Mór? Beikon? Reykur? Hvað er það? Og munum að engir tveir upplifa viskí 100% nákvæmlega eins. Það er gaman að smakka viskí með öðrum því menn upplifa það oftast ekki eins. Það sem einum finnst, finnst öðrum ekki svo allir hafa rétt fyrir sér. Nema sumir vissulega!

Dæmi: Mér finnst eitt einkenna ungra viskía vera bragð af grænum eplum. Hvernig áttu að útskýra það fyrir einhverjum sem hefur ekki smakkað græn epli og hvernig á hann þá að finna það bragð? Vissulega hafa flestir sennilega smakkað græn epli, enda var þetta nú bara svona smá dæmisaga til að leggja áherslu á mál mitt.

Eftir að hafa nusað af dropanum drykklanga (!) stund er kominn tími á að smakka herlegheitin. Munið eftir því hvað lyktin minnti ykkur á. Berið svo saman við það sem bragðskynið er að segja ykkur. Oft er þar töluverður mismunur og kemur á óvart. Ég hef oft smakkað viskí sem mér fannst hundvont þó svo að lyktin gæfi annað í skyn og öfugt. Viskí sem lyktar afar óaðlaðandi getur einnig smakkast unaðslega.

Svo er bara að njóta … í hæfilegu magni vissulega!

Strathearn

Önnur ný verksmiðja heitir Strathearn. Sú var opnuð árið 2013 og í október sama ár hófst framleiðslan. Strathearn stendur við 1300 manna þorpið Methven sem er skammt vestur af Perth, sem er ögn betur þekktur bær.

Edradour hefur hingað til stært sig af því að vera minnsta viskíverksmiðja Skotlands, en Strathearn hefur tekið fram úr þeim, ef svo má að orði komast. Ársframleiðslugeta Edradour er 130.000 lítrar á ári, en framleiðslugeta Strathearn er einungis 30.000 ltr. Abhainn Dearg (Framb. Avín Djarrek)  á Isle of Lewis eru þó hugsanlega enn smærri, en það munar ekki miklu. Að þeim síðar.

Eins og fyrr sagði er Strathearn agnarsmá verksmiðja með litla eimara. Strahearn notar byggtegund sem fáar aðrar verksmiðjur nota nú til dags. Það kallast Maris Otter Barley og er víst sjaldan notað því það þykir frekar „latt“ og dýrt og auk þess erfitt að fá það til að spíra. Með þolinmæði er þó hægt að notast við það og á það að gefa afar mjúkt og gott bragð. Einnig hafa þeir verið að prófa sig áfram með „bere“ bygg, sem vex aðallega á Orkneyjum. Talið er að víkingar hafi komið með þessa tegund byggs yfir til Bretlandseyja á 8. öld. Bere bygg vex reyndar einnig á Islay, en eingöngu síðan 2006 þegar Bruichladdich verksmiðjan lét planta því þar fyrir sitt Bere Barley single malt.

Samhliða viskíi er einnig framleitt þar gin, eins og svo margar nýjar verksmiðjur gera meðan beðið er eftir að viskíið þroskist. Ég er svo sem ekki mikill gin maður en hef smakkað allt það gin sem þeir hafa framleitt og verð að segja að ég hef smakkað verri gin. Mér fannst þessi m.a.s. virkiega góð. Hvað um það, þetta er viskíblogg er það ekki?

Ég hef ekki enn gerst svo frægur að smakka viskíið þeirra (enda er framleiðslan þeirra ekki enn orðin viskí), en þegar það gerist, þá munu detta inn nokkrar línur hér.

Nýlega komu frá þeim tilraunaútgáfur, „viskí“ sem hefur verið þroskað í annarskonar viðartunnum en eik; kastaníuvið, mórberjavið og kirsuberjavið, en eins og við vitum má ekki kalla viski „viskí“ nema það komi úr eik. Því brugðu þeir á það ráð að kalla fyrirbærið Uisge Beatha (framb: Ujsge Ba), sem er fornt, galískt heiti yfir viskí, eða vatn lífsins  (aqua vitae) eins og menn sögðu áður fyrr í óld deis. „Uisge Beatha“ þróaðist svo yfir „uisge“ og svo loks í Whisk(e)y.

Bæði verður framleitt reykt (35ppm) og óreykt viskí hjá Strathearn og eru fyrstu einmöltungar væntanlegir síðla árs 2016. Framleiðslustjórinn heitir Zak Shenfield og er einungis 22ja ára, en hefur þegar fengið nafnbótina Scotland´s Young Distiller of the year í Scottish Craft Distillers Association Awards.

Hér er svo mynd af manninum á bakvið herlegheitin, Tony Reeman-Clark og eins og sést, þá er hann sennilega ekki alinn upp í Gaggó Vest, en burtséð frá því þá eru eimararnir ekki sérlega stórir.tony and stills

http://www.strathearndistillery.com/

AA-strathearn2shotBíð spenntur eftir fyrsta smakki.

Published in: on 04/02/2016 at 16:51  Færðu inn athugasemd  

Nýjar verksmiðjur; Wolfburn.

Það er heilmikil uppsveifla í viskíbransanum þessa dagana, um allan heim. Til að mynda eru japönsk viskí að verða illfáanleg, vegna gríðarlegrar eftirspurnar. Margar verksmiðjur eiga ekki nóg á lager til að nota aldurstilgreiningar lengur og því hafa þær hafa neyðst til að drýgja sína framleiðslu með yngri viskíum. Þekktasta dæmið er Macallan, sem er hætt með 10,12 og 15 ára og notast núna við nöfn, frekar en ártöl. Macallan Gold er t.a.m. gamla 10 ára drýgt með yngra viskíi. Fleiri hafa fylgt í kjölfarið. Ástæðan er einfaldlega sú að fyrir 10-15 árum síðan var ekki framleitt nóg til að anna eftirspurn í dag. Japönsk viskí eru svo kafli útaf fyrir sig, þökk sé aðallega, Jim Murray og bókinni hans með hógværa titilinn, The Whisky Bible.

Í Skotlandi eru að skjóta upp kollinum verksmiðjur hér og þar, og er það vel.  Eftirspurnin eftir skosku viskí er alltaf að aukast. Á 9. áratugnum lokuðu margar, sérstaklega árið 1983 þegar við misstum Port Ellen, Brora, Dallas Dhu, Banff, Glen Albyn, Glenlochy, Glen Mhor, Glenury Royal, og St. Magdalene. 1985 lokuðu Coleburn, Convalmore, Glen Esk og Millburn.

10. áratugurinn var ekki góður til að byrja með heldur þegar Rosebank, Lochside og Littlemill lögðu upp laupana.

Síðan þessi ósköp gengur yfir hefur eftirspurnin aukist aftur og árið 1995 opnaði Arran Distillery á eyjunni Arran við vesturströndina.

Arran framleiðir óreykt (með undantekningum) létt, ferskt viskí með sítruskenndum ávaxtakeim.

Árið 2005 opnaði Kilchoman á Islay. Fyrsta nýja verksmiðjan byggð á Islay í 124 ár. Þeir malta sitt bygg að hluta til sjálfir, en fá megnið frá Port Ellen, sem nú er eingöngu möltunarverksmiðja og sér mörgum viskíverksmiðjum fyrir reyktu byggi/malti.

Það bygg sem Kilchoman fær frá Port Ellen er reykt jafn mikið og Ardbeg, semsagt alger reykbomba en það sem er maltað á staðnum er u.þ.b. helmingi minna reykt, eða um 25ppm. Kilchoman er ótrúlegt viskí eiginlega. Að vera svona vel þroskað miðað við hvað það er ungt (núverandi útgáfur eru um 6-7 ára) og mikið reykt er alveg þrælmagnað. Hef smakkað mörg ung og reykt viskí og þau komast ekki nálægt Kilchoman í gæðum. Gott dæmi er nýja, enska viskíið, St. George´s, sem þó hefur tekið miklum framförum undanfarin 2 ár eða svo.

Arran og Kilchoman eru viskí sem er komin töluverð reynsla á. Hinsvegar eru að gægjast fram í dagsljósið verksmiðjur hér og þar um landið, ýmist á teikniborðinu, í byggingu eða um það bil að byrja að framleiða.

 

Lítum á Wolfburn, sem er nyrsta verkmiðjan á meginlandinu, tók þar fram úr Pulteney sem stendur við Wick á norð-austur horninu.

Thurso

Wolfburn var stofnað árið 2012 og stendur í iðnaðarhverfi við útjaðra bæjarins Thurso og er heldur óhefðbundin í útliti.

aa117

Árið 1821 var stofnuð viskíverksmiðja undir sama nafni, en hún lokaði seinnipart sömu aldar. Þessi nýja er ekki langt frá staðnum þar sem sú gamla stóð. Verksmiðjustjórinn heitir Shane Fraser og hafði starfað áður hjá Lochnagar, Oban og síðast í 7 ár verið verið verksmiðjustjóri hjá Glenfarclas, svo að kauði ætti að vita hvað hann syngur.

Þeir voru ekkert að tvínóna við hlutina og fyrstu droparnir runnu úr eimurunum í janúar 2013. Búist er við fyrsta Scotch-einmöltungnum á næstum vikum eða mánuðum.

Meiningin er að framleiða frekar létt og mjúkt viskí, en sennilega með örlitlum, reyktum, mó-keim því það er að miklu leyti þroskað í gömlum, og litlum (quarter casks) frá einhverri verksmiðju á Islay. Veit ekki hvaða, en grunar Laphroaig. Auk þess verður einhver hluti af framleiðslunni verður reyktur, því 3-4 mánuði á ári er framleitt léttmóreykt viskí. Spurning hvort það verði blandað við óreyktu framleiðsluna eða þeir framleiði 2 mismunandi viskí.

Spennandi að sjá og smakka.

Published in: on 21/01/2016 at 17:32  Færðu inn athugasemd  

Enn ný verksmiðja

Átöppunarfyrirtækið Hunter Laing hefur ákveðið að fara að framleiða sitt eigið viskí. Verksmiðjan verður á Islay, í Ardnahoe sem er rétt sunnan við Bunnahabhain, á norð-austur hluta eyjarinnar. Búist er við að framleiðsla hefjist síðla árs 2017 og verða þeir hugsanlega á undan Gartbreck að opna, vegna tafa hjá þeim síðarnefndu.

Þetta er ein fjölmargra nýrra verksmiðja í Skotlandi. Aðrar eru Gartbreck, Wolfburn, Strathearn, Kingsbarns,Ballindalloch, Ardnamurchan, Annandale, Daftmill (opnaði 2005 en lítil virkni enn sem komið er), Abhainn Dearg, Ailsa Bay, Roseisle, Eden Mill, Dalmunach, Glasgow distillery og Harris distillery, Raasay og Barra. Þetta eru heilar hvað, 18 nýjar verksmiðjur. Sem er hreint ótrúlegt. Best að setjast yfir bækurnar og stúdera þetta allt saman…

Published in: on 21/01/2016 at 16:42  Færðu inn athugasemd